Hvað er sporanámskeið? Hundar lifa í stórum lyktar-heimi. Þegar við erum úti að labba erum við að njóta útiverunnar og horfa á umhverfið. Hins vegar er hundurinn að þefa upp allar upplýsingar í umhverfinu. Hann finnur lykt sem við finnum ekki. Hundurinn vinnur úr lyktinni í heilanum og lyktarstöðvar hundins ná yfir um þriðjung af heila hundsins, sem gefur vísbendingu um mikilvægi þessa skynfæris. Með öðrum orðum hafa hundar stóra þörf til þess að fá að þefa, það veitir þeim andlega örvun og þeir verða þægilega andlega þreyttir eftir góða spora-vinnu. Hundar sem fá ekki andlega örvun geta þróað hjá sér ýmis hegðunarvandamál og eru oft eirðarlausir þrátt fyrir langa göngutúra. Með æfingum getum við nýtt þessa hæfileika til að láta hundinn markvisst fylgja sérstakri lykt. Það er hægt að kenna hundum að fylgja hvaða lykt sem er, t.d. er hægt að kenna hundum að þefa upp slóð manna. Sem sagt, þegar þú labbar þá skilur þú eftir þig lyktar-slóð sem hundurinn getur þefað upp. Þetta köllum við að spora.
Að spora er skemmtileg íþrótt fyrir bæði hund og eiganda. Allir hundar geta sporað og hafa mjög gaman að því. Það er hægt að æfa spor bara til gamans en svo er hægt æfa með það að markmiði að fara að keppa. Reglulega eru haldin sporapróf/keppni í spori á vegum HRFÍ. Sporanámskeið:
Farið verður meðal annars yfir: - Hvað er spor og hvernig það virkar - Hver ávinningurinn er að því að láta hundinn vinna með nefinu - Hvað er það sem gerir hundinum kleift að finna lyktina okkar - Hvernig við kennum hundinum að fylgja sporinu markvisst - Förum yfir reglur í spori 1 - Hvað eru verðlaun fyrir hundinn og af hverju þau eru svo mikilvæg í sporavinnu - Hvernig við getum nýtt leik sem verðlaun til að efla samvinnu - Verklegar æfingar þar sem hver og einn fær að prófa að spora - Förum yfir hvernig við byrjum að setja millihluti í sporið