Næmni fyrir hljóðum er algengasta vandamálið hjá hundum. Samkvæmt rannsókn frá Englandi árið 2005 eru 49% af hundum hræddir við hljóð og 45% hunda sérstaklega hræddir við flugelda á áramótum.
Fyrir þessa hunda er ekki bara gamlárskvöld martröð heldur einnig frá því að byrjað er að selja flugelda og langt fram í janúar. Mér finnst verst að vita til þess að vera labba með hundinn og allt í einu skýtur einhver upp í næsta nágrenni, það gerir að okkur bregður og þar sem ég „er öðruvísi“ þá skynjar hundurinn að þetta er „eitthvað“ og ákveður kannski að vera hræddur við þetta. Þess ber að geta að það er bannað að skjóta upp flugeldum nema á tímabilinu 28. desember til og með 6. janúar og á þessu tímabili er óheimilt að skjóta upp milli miðnættis og kl. 9 að morgni að nýársnótt undanskilinni. Þetta er þó sjaldan eða aldrei virt á þessum árstíma.
Fyrir þessa hunda er ekki bara gamlárskvöld martröð heldur einnig frá því að byrjað er að selja flugelda og langt fram í janúar. Mér finnst verst að vita til þess að vera labba með hundinn og allt í einu skýtur einhver upp í næsta nágrenni, það gerir að okkur bregður og þar sem ég „er öðruvísi“ þá skynjar hundurinn að þetta er „eitthvað“ og ákveður kannski að vera hræddur við þetta. Þess ber að geta að það er bannað að skjóta upp flugeldum nema á tímabilinu 28. desember til og með 6. janúar og á þessu tímabili er óheimilt að skjóta upp milli miðnættis og kl. 9 að morgni að nýársnótt undanskilinni. Þetta er þó sjaldan eða aldrei virt á þessum árstíma.
Hversu hræddir hundar verða er sem sagt mismunandi, en það er einnig mismunandi hvernig þeir sem verða hræddir bregðast við hræðslunni. Það fer alveg eftir persónuleika hundsins. Sumir hundar leita stuðnings hjá eigandanum þegar þeir verða hræddir og elta hann út um allt, en sumir vilja fá að vera í friði og leita að stað sem þeir geta troðið sér inn í, t.d. undir borð, inn í búrið, bakvið sófa og þannig staði. Hvernig sem hundurinn vill hafa þetta er mikilvægt að virða það og leyfa honum að hafa þetta eins og hann vill.
Sumir hundar verða svo hræddir að þeir stressast allir upp. Neita t.d. að fara út að pissa, skottið milli lappanna, hjúfra sig saman, meðan aðrir byrja að gelta á fullu og virðast vilja flýja og byrja jafnvel að krafsa í dyr eða glugga til að komast út. Sumir geta ælt eða fengið drullu.
Ef hundurinn verður mjög hræddur og ef það er ekkert gert í því getur hann byrjað að tengja aðra hluti við áramótin, t.d. jólaskrautið eða þess háttar og næstu áramót getur hann því byrjað að verða stressaður um miðjan desember þegar fólk byrjar að undirbúa jólin.
Þannig að ef það er smá hræðsla fyrstu áramótin, þá er mjög líklegt að það aukist næstu áramót og verði ennþá verra þriðju áramótin og svo framvegis. Þess vegna er mikilvægt að gera eitthvað í þessu strax.
Ég ætla að lista upp annars vegar hvað við getum gert til þess að koma í veg fyrir að hundurinn þinn verði hræddur við flugelda og hins vegar, ef þú ert með hund sem er nú þegar hræddur við flugelda, lista ég upp ráð sem þið getið prufað til þess að reyna að róa hundinn.
Fyrirbyggjandi ráð;
Ræktandinn ætti að byrja á því þegar hvolparnir eru ennþá hjá honum að venja þá við ýmis hljóð. Hægt er að kaupa geisladisk með flugeldum og spila öðru hvoru, fyrst lágt og hækka svo smátt og smátt. Ef mamma hvolpanna er hrædd við flugelda þarf hún að vera fjarverandi þegar þetta er gert svo hún smiti ekki hvolpana af sinni hræðslu.
Þið getið líka gert þetta þegar þið fáið hvolpinn í hendurnar eða spilað önnur hljóð öðru hvoru, svo sem skothljóð úr byssu ef hundurinn á að fara á veiðar í framtíðinni.
Félagsmótunarskeið hvolpa er frá 3-12 vikna, svo á því tímabili þarf hvolpurinn að hafa tengst fólki og fengið að heyra mismunandi hljóð sem eru venjuleg í okkar lífi. En allar svona æfingar þurfa að vera í stutta stund og ekki á hverjum degi, heldur er mikilvægt að hvolparnir fái að hvíla sig vel.
Tveimur vikum fyrir áramótin getið þið keypt DAP hjá dýralækni. Það er til sem hálsband og sem box sem sett er í samband og úr kemur lykt sem við finnum ekki en þessi lykt hefur róandi áhrif á hunda.
Þegar þið heyrið í fyrsta flugeldinum skuluð þið haga ykkur alveg eðlilega og láta sem þið hafið ekki heyrt neitt hljóð. Þegar hundur heyrir eitthvað nýtt í fyrsta sinn, á hann til að líta á ykkur til þess að meta hvort hann eigi að verða hræddur eða ekki. Og ef þið eruð róleg þá ákveður hundurinn kannski bara að vera rólegur líka.
Ekki krefjast þess af hundinum að fara út þegar verið er að sprengja. Alls ekki leyfa hundinum að vera einum úti í garði yfir þetta flugelda tímabil. Þið skuluð alltaf vera með honum úti og hafa hann í taumi. Ef ofsahræðsla grípur hann er hann líklegur til að hlaupa eitthvað út í buskann og týnast. Verið alveg örugg og hafið ekki hundinn lausan nema þið séuð langt frá byggð.
Ekki láta hundinn vera einan heima um áramót og ALLS EKKI taka hann með á brennur eða vera með hann úti þegar verið er að sprengja. Þótt hann virðist höndla þetta skuluð þið ekki gera honum þetta. Sumir hundar, þegar þeir verða hræddir slökkva algjörlega á sér og virðast þá „voða góðir og stilltir“. Enginn hundur hefur gaman af því að sjá flugelda.
Búið til öruggt svæði heima þar sem hann sér ekki út, og lykt að utan kemst ekki inn. Lyktin sem kemur af flugeldunum getur gert hundinn ennþá stressaðri. Lokið svo öllum gluggum upp úr hádegi á gamlársdag og ekki opna þá aftur fyrr en allt er búið og reykur frá flugeldunum er farinn. Ef þið getið, þá er sniðugt að draga fyrir alla glugga og jafnvel setja handklæði í gluggakistur ef gluggarnir eru óþéttir.
Hafðu öll ljós kveikt í íbúðinni svo birta frá flugeldunum verði minni og hafðu tónlist frekar hátt stillta til að dempa flugeldahljóðin aðeins.
Fyrir hádegi á gamlársdag er sniðugt að fara í góða langa göngu, helst fyrir utan bæinn og virkilega leyfa hundinum að fá góða útrás. Þannig er hann þreyttari um kvöldið og vonandi þar af leiðandi rólegri. Bjóðið svo hundinum að fara út að pissa um kaffileytið í örstutta stund, í bandi að sjálfsögðu svo þurfið þið ekkert að fara með hann út að pissa meira þetta kvöld nema að hann virðist vera til í það og þá kannski bara á meðan Skaupið er, því þá eru fæstir að sprengja.
Margir hundar neita að fara út að pissa og er það bara allt í lagi. Ef það koma slys inni þá verður bara að hafa það, það er þess virði frekar en að eiga á hættu að búa til taugaveiklaðan hund um hver áramót.
Verið búin að kaupa fullt af nagbeinum og bjóðið hundinum að naga, en ef hann vill það ekki þá er lítið hægt að gera í því.
Hugsið út í, ef þið eruð með fleiri hunda eða ætlið að vera á stað þar sem er annar hundur, hvort hinn hundurinn er rólegur eða hræddur á áramótunum. Sem dæmi, ef þið eruð með hvolp og þið ætlið að vera hjá afa og ömmu um áramót og þau eiga fullorðna tík sem er hrædd um áramótin, þá mun hún smita þinn hund af þessari hræðslu og er það því miður varanlegt. Það má vel vera að þið takið ekki eftir hræðslunni í ykkar hvolpi fyrr en á næsta ári eða þar næsta. Ef afi og amma eiga hins vegar hund sem er frekar rólegur yfir þessu öllu saman er mjög fínt að hafa þá saman um áramótin því þá hjálpar það ykkur heilmikið.
Athugið að ef þið eruð með fullorðinn hund sem hefur alltaf verið góður um áramótin og þið fáið í heimsókn fjölskyldu með stressaðan hund, þá mun sá hundur ekki „skemma“ ykkar hund. Þetta sem skrifað var að ofan á bara við hvolpa og unghunda sem eru ennþá að mótast. Ef ykkar hundur er rólegur og orðinn 4-5 ára þá breytir það engu að fá stressaðan hund til ykkar. Þannig getið þið alveg boðist til að vera kennarar og hjálpa hvolpinum að slaka á sín fyrstu áramót.
Þið þurfið mögulega að fórna ykkar gamlársfagnaði fyrstu árin með nýjan hund. Best er að skipuleggja ykkur þannig að það sé rólegt heima við meðan mestu lætin standa yfir og að hundurinn sé aldrei einn heima.
Ef hundurinn ykkar er hræddur nú þegar:
Ef síðasta gamlárskvöld var erfitt fyrir hundinn, þá verður þetta gamlárskvöld eins erfitt eða erfiðara ef þið gerið ekkert til að auðvelda fyrir.
Lesið yfir kaflann um fyrirbyggjandi ráð og framkvæmið allt sem þið getið af þeim ráðum.
Fyrsta sem ég mæli með er að þið útvegið DAP og hafið í gangi 2 vikum fyrir áramótin og að þið kaupið róandi lyf handa hundinum. Passið upp á að vera snemma á ferðinni því dýralæknastofur eru ekki opnar kl. 20 á gamlárskvöld þegar hundurinn er orðinn svaka stressaður. Einnig þarf að gefa lyfið nokkrum klukkutímum áður svo það verði byrjað að virka. Hafið samband við dýralæknirinn ykkar til að fá nánari ráð og leiðbeiningar.
Aldrei skilja hræddan hund eftir einan heima. Komið honum fyrir hjá vinum ef þið getið ekki passað hundinn sjálf. Passið upp á að hafa hann þá ekki í pössun þar sem annar hræddur hundur er til staðar.
Sniðugt er að sitja með hundinn á rólegum stað og nudda hann vel og lengi. Nudd geri að verkum að hormónin oxyticon og endorfín myndast sem veitir vellíðan og hefur róandi áhrif.
Sem sagt gamla ráðið að ekki megi klappa hræddum hundi er ekki lengur gilt og rannsóknir hafa sýnt fram á að við getum ekki aukið hræðsluna með því að klappa hundinum þegar hann er hræddur, heldur hafa langar strokur og nudd róandi áhrif. En það er mikilvægast að við séum róleg og sýnum ekki hræðslu sem hundurinn getur skynjað.
Ef hundurinn ykkar sýnir ofsahræðslu og ykkur finnst þið ekki geta róað hann á neinn hátt, þá skuluð þið þessi áramót mögulegt er, sett hundinn í pössun út í sveit eða í minna bæjarfélag þar sem er minna um flugelda. En það þarf að sjálfsöðgu að vera til fólks sem þið þekkið og treystið fyrir hundinum ykkar.
Svo með vorinu skuluð þið byrja að huga að næstu áramótum. Hafðið samband við hundaþjálfara og fáið ráð til að byrja að æfa hundinn þannig að hann nái vonandi að róa sig betur fyrir næstu áramót. Svona prógramm tekur marga mánuði og þess vegna er ráðlagt að byrja snemma.
Það er frekar eðlilegt að hræddir hundar neiti að fara út að pissa í marga daga í kringum áramótin og þetta skal bara virða og þá frekar keyra með hundinn út úr bænum þar sem hann fær að viðra sig vel og gera sínar þarfir. Passið að hundurinn fái sína hreyfingu og jafnvel meiri en venjulega og þá fyrri part dags til þess að hann verði þreyttari og þá minnka streitueinkennin.
Stresseinkenni hunda geta verið meðal annars:
Hrukkur í andlitinu, er órólegur, pissar á allt og jafnvel á fólk, verður létt hræddur, flasa um líkamann, másandi, niðurgangur, hraður púls, hagar sér illa (riðlast t.d.), „brosandi út að eyrum“.
Ef hundurinn verður stressaður þá myndast stress hormón í líkamanum sem tekur nokkra daga að hverfa, svo eftir stressaðan dag fyrir hundinn er mjög gott að hafa 3-4 daga rólega heima og leyfa honum að sofa mikið.
Gleðilegt nýtt hundaár:):)

Hér sjáum við gott dæmi um mjög stressaðan hund.