Þegar hundurinn okkar gerir eitthvað sem við viljum ekki að hann geri, veltum við fyrir okkur hvernig við getum látið hann hætta því. Algengt er t.d. að hann sé að naga hluti sem má ekki naga. Fjarstýringar, síma, snúrur, borðfætur og þess háttar. Til eru ýmis ráð til þess láta hann hætta að naga hlutina, það er hægt að skamma hann, taka í hann og segja nei og vonast til þess að það nægi og hann hætti. Setja pipar eða þess háttar á hlutinn., það virkar á suma en ekki alla. Hvernig leysum við þetta þá?

Ef við höldum áfram með dæmið að ofan með unghund sem er að stela hlutum sem hann veit hann má ekki taka, gjarnan síma, fjarstýringu eða barnaleikföngin. Hann tekur hlut og hleypur í burtu og börnin á eftir. Þetta er klárlega orðið að leik hjá honum. Fá þau í eltingaleik. Ferlega gaman.
En okkur finnst það ekki eins gaman.
Ef við gröfum ennþá lengra niður í af hverju, þá kemur upp sú hugmynd að hundurinn gæti verið pínu hyper/stressaður þegar börninn eru að leika sér heima, að það sé of mikið í gangi, að hundurinn sé orðin eins og barn í barnaafmæli. Æstur og út um allt og veit ekkert hvað hann er að gera. Einmitt þetta kveikti á peru hjá eiganda og sagði hún að jú, hundurinn er miklu rólegri og slakar þegar börnin eru ekki heima.
Hvernig leysum við þetta þá? Jú, við sjáum til þess að hundurinn nái að slaka á þótt börnin séu heima. Eigandinn hafði verið á grunnnámskeiði hjá mér og ég benti henni á eina æfingu sem við höfðum farið yfir sem hún gæti styrkt í þessari aðstæðu líka. Einnig benti ég á að hægt væri að afmarka svæði barnanna með grindum svo hundurinn fengi ekki alltaf að þvælast með þeim.
Þarna höfum við líklega fundið ástæðuna og þurfum þar af leiðandi ekki að skamma hundinn neitt.
Stress er algengt hjá hundum sem ná ekki að fá nægilega hvíld. Hvolpar þurfa sofa ca 18 tíma á sólarhring og fullorðnir hundar ca 12 til 18 klukkutíma.